12.9.2008 | 15:39
Fimleikaundirbúningur
Nú þegar haustið er gengið í garð fer íþróttastarfið á fullt. Ég var svo "heppin" að það klúðraðist eitthvað í skólanum að dreifa skráningarblöðum fyrir fimleikana í síðustu viku og börnin fengu upplýsingarnar í þessari viku. Eða það má kannski segja að þetta hafi verið okkar mistök, við hefðum átt að dreifa þessu í bekkina sjálf. En svona er þetta, maður er alltaf að læra eitthvað. Þannig að fimleikakennslan byrjar næsta mánudag en ekki síðasta mánudag eins og við ætluðum. Ég var eiginlega bara fegin, þar sem ég hef legið í rúminu með flensu síðan á laugardaginn og hefði bara alls ekki getað skipulagt vetrarstarfið um síðustu helgi. Ég hef því getað dreift þeirri vinnu á þessa viku með góðri aðstoð frá panodil-hot og hóstamixtúru ásamt því að sofa reglulega yfir daginn Það er ekkert sérlega einfalt að skipuleggja fimleikaæfingarnar. Allt verður að passa við skóla og leikskóla. Svo er alltaf verið að ýta okkur útí horn og klípa af okkar tíma í salnum því íþróttahús bæjarins er fyrir löngu orðið allt of lítið fyrir þá starfsemi sem hér er. Svo þurfti ég að standa í rifrildi við minn ágæta nágranna, af því að hann var sendur af körfunni í "skítverkin", þ.e. að stela tíma af okkur. Þeir eiga 79,8 % af tímanum (meistaraflokkur meðtalinn) og við 9,2 % en samt þurftu þeir að klípa af þessu. Okkar iðkendur eru 48% af þeirra iðkendum. En bara svo það komi skýrt fram, þá slógumst við ekkert yfir þessu, hehe, og erum ennþá jafn góðir grannar
Í Grindavík er mikill körfu-og fótbolta áhugi sem er bara mjög gott. En mörgum þótti vanta meiri fjölbreytni fyrir börnin því það hafa jú ekki allir áhuga á því sama. Það var stofnuð hér sunddeild sem hefur verið mjög vinsæl og síðan fimleikadeildin. Þegar við byrjuðum með fimleikadeildina hér í Grindavík þurftum við að berjast fyrir því að fá að vera til. Nú, fjórum árum síðar, þurfum við ennþá að bítast við aðra um pláss. Og það er það sem mér finnst svo leiðinlegt við þetta. Eiginlega bara sorglegt. Því það sem við erum að vinna að, eru meðal annars forvarnir fyrir börnin okkar. Ég lít ekki svo á að ég sé í samkeppni við aðrar íþróttagreinar, þvert á móti. Ég vil samstarf með öðrum deildum. Við erum jú öll deildir í sama félaginu, UMFG, og við eigum að vinna saman að því að halda börnunum okkar í íþróttum burtséð frá því hvað þær heita. Á ísskápnum mínum er segulmerki frá bænum sem á stendur "Grindavík er tómstunda og íþróttabær". Ég vona bara að einhverjir sem eru í bæjarstjórn eigi svona líka og átti sig á að hér þarf að gera eitthvað. Nú er búið að loka Festi, þar sem karfan var með félagsaðstöðu og svo var verið að henda UMFG út úr Kvennó og á götuna...
Mynd frá æfingu í desember sl. tekin af Kristni Benediktssyni. Hér eru nokkrar hressar fimleikastelpur og Steini þjálfari í baksýn.
Það verður heljarinnar húllumhæ og hopperí á næstunni. 90 börn eru skráð í fimleika núna svo það er mikið fjör framundan. Það er svo gaman að sjá hvað börnin eru glöð og skemmta sér vel, það er jú mergurinn málsins. Hafið góða helgina.
Um bloggið
Sigrún Þorbjörnsdóttir
Færsluflokkar
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Sæl vertu Sigrún og velkomin í minn bloggvinahóp.
Helga Magnúsdóttir, 12.9.2008 kl. 16:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.