Sundkonan - kærleikssaga

Þegar ég gekk með Þórdísi, eldri dóttur mína, þá fylgdust ættingjar mínir og vinir grannt með meðgöngunni. Þegar ég varð ófrísk, þá voru aðeins liðnir tíu mánuðir frá því ég lauk við krabbameinsmeðferð. Ég var með krabbamein í eggjastokkum og töldu læknar útilokað að ég mundi nokkurn tíman eignast barn. Það var búið að fjarlægja annan eggjastokkinn og hinn átti að hafa eyðilagst í lyfjameðferðinni, allar rannsóknir sýndu það. En kraftaverkin gerast, og ég fór af stað Smile Ein af þeim sem fylgdist vel með var Valla frænka, föðursystir mín. Hún fer alla morgna í Árbæjarlaugina og syndir þar. Eftir sundið fer hún í heita pottinn. Þar hittist alltaf sama fólkið, sem spjallar og er náttúrulega farið að þekkjast dálítið. Þeirra á meðal var kona sem var farin að fylgjast með meðgöngunni líka. Ég var gengin viku framyfir. Valla hafði ekki komist í sund í þrjá daga, fimmtudag, föstudag og laugardag, en það er sjaldgæft að hún missi af sundsprettinum. "Sundkonan" hringdi heim til hennar á sunnudeginum til að vita hvort allt væri í lagi, með mig og barnið, því hún var farin að hafa áhyggjur af "skrópinu" hennar Völlu. Ég hafði aðfararnótt laugardagsins lent í bráðakeisara og það var allt í himnalagi með mig og Þórdísi. Skömmu síðar færði Valla mér sængurgjöf frá Sundkonunni og það var fyrst þá sem ég vissi af henni.

Þessi saga finnst mér alveg lýsa því, hvað við getum borið mikinn kærleika til náungans, alveg óháð því hvort við þekkjum viðkomandi eða ekki. Og hvort sem það er kreppa eða ekki.

IMG 2499

Hér er Þórdís í Sundkonu-gallanum með Berglind systur minni og Lúkasi, manninum hennar

IMG 5329

Þessi mynd er svo tekin ári seinna, en þá er Eydís í gallanum Smile 

IMG 2742

Þessa mynd fann ég svo þegar ég var að gramsa í myndum og set hana hér handa Ásthildi bloggvinkonu og einu sinni tengdamömmu. Hér eru Hanna Sól og Þórdís saman að kúra.

IMG 2743

Nú eru þessar sætu stelpur orðnar stórar prinsessur, bleikar í gegn Grin 

IMG 4816

Mér finnst eins og þetta hafi verið í gær! Þessi stelling var mjög algeng hjá mér LoL Þórdís hætti á brjósti rétt áður en Eydís fæddist. Svo hún mundi ekki verða spæld yfir því að ég væri að halda á Eydísi og gefa henni brjóst, þá fékk hún mjólk í glas og sat með okkur og annað hvort kroppaði í handlegginn á mér eða bringuna. Þessi stund heitir "stelpuknús" og varð að vana hjá okkur. Við förum ennþá saman í stelpuknús alla daga InLove 

"Sundkonan" heitir Erla og á afmæli á morgun og óska ég henni til hamingju með það. Ég fæ svo að hitta hana í fyrsta sinn á mánudaginn, en þá ætla ég með Völlu frænku til hennar að versla hjá henni. Ég get þá þakkað fyrir mig í eigin persónu.

Heart Munum að vera góð við hvort annað. Kærleiksknús á ykkur Heart


Verðmerkingar og kuldakúr

Ég hef tekið eftir því undanfarið, að í næstum því hvert sinn sem ég er að versla matvöru, þá lendi ég í því að verð á einhverri vöru er hærra á kassanum heldur en gefið er upp á hillunni. Mér finnst þetta óþolandi og gjörsamlega óviðunandi. Ég hef alltaf fylgst vel með verði á matvöru og þetta er eiginlega orðið innbyggt í mig að lesa yfir kassakvittunina áður en ég fer úr búðinni. En svo er fullt af fólki sem er ekkert að spá í þetta og borgar svo bara miklu hærra verð. Við eigum bara að geta treyst því að farið sé að lögum og rétt verð séu á kassa og hillu. Þetta eru ekkert endilega miklar upphæðir sem munar, en molarnir eru líka brauð. Svo eru líka vörur sem eru ekkert verðmerktar í hillum. Það er bara prinsipp hjá mér að kaupa ekki þær vörur, því einungis þannig getum við sent skilaboð um að við verslum ekki blindandi.

En að öðru. Síðan nýja parketið kom á, og þar sem gömlu flísarnar voru fyrir framan herbergin, hafa stelpurnar fundið sér nýtt leiksvæði. Þær finna greinilega mun á gólfinu og alla daga koma þær með dót fram að leika.

IMG 0520

Þessi mynd var tekin fyrir nokkrum dögum. Eydís er litla barnið og Þórdís mamman í voða skemmtilegum mömmuleik Smile 

IMG 0493

Svo er sængin oft dregin fram á kvöldin líka...það verður nú að hafa það kósý líka W00t Hér er Þórdís að lesa fyrir Eydísi.

IMG 0548

Þessi mynd var svo tekin í dag. Það góða við þetta er að það er miklu styttra að fara með dótið inn í herbergið héðan heldur en úr stofunni Whistling En mér finnst voða kósí að hafa þær í kringum mig að leika sér. Það er líka óendanlega gaman að hlusta á leikinn hjá þeim LoL 

IMG 0534

En flottar prinsessur vilja hafa herbergið sitt fínt. Hér er Þórdís að sækja dót sem hefur farið undir rúmið. Hehe, þetta minnti mig á eitthvað þegar ég var lítil...maður ýtti nú stundum draslinu undir rúm og hélt maður kæmist upp með það Whistling en ég held nú samt að hún hafi ekki ennþá uppgötvað þetta þjóðráð...

IMG 0537

Hér er Þórdís ánægð með tiltektina sína Smile 

IMG 0544

Á meðan er Eydís skott að teikna í sínu herbergi Smile 

IMG 0538

En kisi hefur engar áhyggjur af draslinu. Hann hefur bara áhyggjur af matardallinum sínum og hvenær hann kemst út á kattaþing. En það verður ekki í kvöld þar sem veðrið er svo leiðinlegt.

IMG 0484

En þá er gott að fá sér lúr hjá pabba. Þessi köttur er svo mikið dekraður hér á heimilinu. Steini sagði við mig einn morguninn um daginn að hann vildi vera köttur hér!

IMG 0555

Ég var að blanda nuddolíur í kvöld. Þórdís var ekki lengi að fara með olíu til pabba og fá nudd í staðinn Grin 

IMG 0579

Og Eydís fékk nudd líka Grin 

Úti er slydda og rok, svo það er voða gott að kósa sig bara inni. Og nú fer ég og skríð undir sængina mína Sleeping Góða nótt elskurnar Heart


Peningarnir vaxa á trjánum!

Þar sem ég var búin að standa á haus í steypuryki og alls konar standi (eða ástandi..) í síðustu viku, þá ætlaði ég ekki að standa í neinu afmælisveislustússi á sunnudaginn. Steini pantaði uppáhalds tertuna mína hjá Hérastubbi bakara og ég bjóst kannski við að mamma og pabbi kæmu í kaffi, og systkini mín. En rétt eftir hádegi birtust Berglind systir og Lúkas maðurinn hennar, með fullt fangið af tertum og góssi sem mamma hafði bakað. Svo bara birtust yfir þrjátíu manns, svo hér var óvænt fullt hús fram að miðnætti. Aldeilis óvænt það Smile 

IMG 0313

Eydís hjálpar pabba sínum að leggja parketið á laugardagskvöldið. Ekki vantar áhugann! Síðasta spýtan fór svo niður rétt eftir að Berglind og Lúkas birtust á sunnudaginn.

IMG 0321

Hér koma mamma, pabbi og Guðni bróðir og færa mér gjöf sem mamma hannaði og þeir feðgar smíðuðu og pökkuðu inn sjálfir...

IMG 0330

Ég alveg bilaðist úr hlátri þegar ég opnaði pakkann. Ekki vantar hugmyndaflugið né prakkaraskapinn í þau mömmu, pabba og Guðna LoL Hef aldrei séð jafn snilldarlega uppfinningu...

IMG 0340

Pabba og mömmu fannst ómögulegt að gefa mér peninga í umslagi...svo pabbi fann gamlan kúst, og þeir röspuðu af honum ysta lagið og boruðu síðan göt í hann og bjuggu til þetta fína peningatré W00t 

IMG 0364

Margir góðir gestir mættu óvænt, meðal annars systkini hans Steina sem eru hér með mökum.

IMG 0365

Kiddi, Haukur og Alda

IMG 0346

Mínir kæru nágrannar og vinir mættu líka. Hér er Dóri, trommari með meiru

IMG 0351

Hér eru Guðni, minn heittelskaði bróðir, Fanný, hinn helmingurinn hans Dóra, og Logi sonur þeirra sem var eitthvað feiminn við myndavélina.

IMG 0378

Ég fékk margar fallegar gjafir og fékk líka góða aðstoð við að taka upp pakkana LoL

IMG 0391

Krakkarnir héldu að þessi vasi væri glas. Því var ákveðið að héðan í frá fengi ég mér bara eitt glas á kvöldin W00t sem er eins gott, því ég er ekki mikið fyrir áfengi LoL 

IMG 0357

Afastelpur Smile 

IMG 0449

Þórdís blómarós komin í náttfötin. Stelpurnar fengu að vaka meðan gestirnir voru, svo var frí í leikskólanum á mánudaginn.

IMG 0406

Eydís fékk sér brúntertu í kvöldsnarl, voða ánægð.

IMG 0411

Peningatréð er merkt "SÞ BANKI" Ætli ég eigi þá ekki verðmætasta bankann í dag... Það fylgdi kvöð með trénu, ég þarf að eyða hlutabréfunum í sjálfa mig. Ég veit ekki hvort ég tími að skemma það...

IMG 0416

Stelpunum fannst þetta alveg magnað. Hér eru þær komnar með buddurnar sínar, til að bæta við tréð. Seinna um kvöldið, þegar fleiri gestir komu, þá hljóp Þórdís til dyra og sagði "mamma mín er rík, mamma mín er rík". Segiði svo að peningarnir vaxi ekki á trjánum, og víst er að mörgum langaði í afleggjara af trénu með sér heim Grin 

IMG 0432

Nýja parketið komið á. Ég er rosa ánægð með það og sérstaklega ánægð með að við skildum hafa tekið flísarnar burt og sett parket alla leið. Þetta er eins og nýtt hús. Mér fannst gamla parketið alltaf fínt, en þetta er mun betra.

IMG 0442

Þórdís skó-skotta prófar nýju skóna sem ég fékk í afmælisgjöf. Vinir mínir sem gáfu mér þá, vilja meina að ég sé algjör leikhúsrotta, og þurfi því að eiga fína leikhússkó. Ég ætti því að geta farið flott í leikhús á næstunni, því ég fékk líka leikhúsmiða, gjafabréf á Lækjarbrekku, hálsmen, aðra skó, peysu og ýmislegt fleira. Ég fékk líka símtal frá Afganistan, þar sem Gísli frændi er hermaður og annað símtal frá Cambridge, þar sem Ragnheiður frænka er í heimsókn. Henni fannst ekki vera liðin 40 ár síðan hún var að passa mig nýfædda, hehe. Hjartans þakkir fyrir mig, elsku vinir mínir og fjölskylda InLove Þið eruð ótrúleg, og líka ótrúlegir prakkarar, hehe Devil Heart


Allt er fertugum fært

Þegar ég vaknaði í morgun, spratt ég fram úr rúminu og skaust inn á bað. Ég leit í spegilinn. Bjóst við að sjá virðulegt andlit þroskaðrar konu, en eina sem ég sá var sama stelpuskottið og var í speglinum í gær. Það hljómar furðulega, en í gær var ég þrjátíu og eitthvað en í dag er ég komin á fimmtugsaldurinn GetLost Sumir sem ég þekki hafa verið afskaplega viðkvæmir fyrir því að verða fertugir. Því er eiginlega þveröfugt farið með mig. Mér finnst frábært að eldast. Lífið hefur kennt mér það, að meðan við eldumst, þá fáum við að lifa. Og það er gaman að vera til og fá að njóta alls þess sem lífið hefur uppá að bjóða. Ég ætla ekki að halda neina formlega veislu í tilefni dagsins. En ég ætla að vera heima og það verður bara opið hús fyrir þá sem vilja líta inn og fá sér kannski tertusneið og eitthvað gúmmulaði. Afmælisgjafir eru alveg óþarfar en ég þigg alveg knús og kreist og fullt af kossum og faðmlögum Smile

7156775-lg

Ég verð ekkert í felum í dag. Ætla bara að hafa það kósí. Knús á ykkur Heart


Komin út í horn

Þá er ég í bókstaflegri merkingu búin að mála mig út í horn! Ja, að minnsta kosti fram á gang. Ég kemst þó í forstofuherbergið og þvottahúsið. En ólíkt ástandinu í þjóðfélaginu þessa dagana, þá mun ég samt komast út úr horninu á næstu klukkutímum. Við tókum nefnilega þá ákvörðun, að fyrst við stóðum frammi fyrir því að þurfa að skipta um parketið í stofunni, þá ákváðum við að taka burt flísarnar fyrir framan stofuna og inn svefnherbergisganginn og setja parket þar líka. Ég sá alltaf eftir því að hafa ekki gert það á sínum tíma þegar við settum hitt parketið á. Þá var Þórdís nýfædd og við bara vorum ekki að nenna því þá. Þannig að vitandi það, þá gátum við ekki sleppt því núna. Ætlum sko ekki að þurfa að skipta eina ferðina enn um gólfefni svo það er now or never! Það var því heilmikill hamagangur um helgina að brjóta allt og bramla. Steini fékk það skemmtilega hlutverk. Hann kom svo heim í hádeginu áðan og tók restina sem var upp við skápana. Það er ekkert smá ógeðsryk og drulla um allt sem fylgir þessu. Ég var svo að enda við það að mála yfir gólfið til að rykbinda. Fann til þess gamla málningu svo nú er gólfið fagurbleikt á litinn. Ætli prinsessurnar vilji nokkuð fá parket yfir það LoL Næsta mál er svo að bretta upp ermarnar og fara að þrífa. Þetta er svo mikið, ætli ég verði ekki bara að fara úr bolnum líka W00t 

IMG 0199

Svona leit þetta út á laugardaginn

IMG 0201

En Eydís, litla skottið mitt, fékk eyrnabólgu um helgina. Hún svaf ekkert og grét bara af verkjum. Ég fór með hana á barnalæknavaktina og hún fékk sýklalyf. Hún fór því ekki á leikskólann í gær og Þórdís fékk að vera í fríi líka. En þar sem Eydís hafði lítið sofið, þá svaf hún lengur og Þórdís gat varla beðið eftir að hún vaknaði. Hér faðmast þær þegar Eydís loksins vaknaði.

IMG 0203

Þórdís bað um leyfi til að kyssa Eydísi meðan hún svaf. Svo fór hún og kyssti systur sína ofurvarlega InLove Þær eru svo samrýmdar þessar elskur

IMG 0206

Knúsusystur Smile 

IMG 0212

Eydís fékk að fara smá stund út. Hún hefur verið alveg hitalaus í sólarhring og fannst súrt að bara Þórdís færi út

IMG 0211

Simbi fylgist með. Held stundum að hann haldi að hann sé hundur Sideways Hann labbar alltaf með þegar ég fer með stelpurnar á leikskólann. Hann á það líka til að bíða fyrir utan leikskólann meðan þær eru þar. Hann græðir líka fullt af klappi þar og það finnst honum ekkert leiðinlegt Grin Svo finnst krökkunum merkilegt að skoða kisu sem hefur bara þrjár lappir.

IMG 0234

Stelpurnar elska að fá að taka þátt í öllu. Hér er Þórdís í gærkvöldi að ryksuga flísaryk og hún vandaði sig ekkert smá Smile 

IMG 0250

Á meðan var Eydís að hjálpa mömmu sinni að setja hreint á rúmin. Það er ekki gott að sofa í steypuryki Shocking samt voru hurðir lokaðar og teipað fyrir. Eydís er orðin mjög spræk, var ekki lengi að hrista þetta af sér. Hún hefur tvisvar áður fengið eyrnabólgu og tvö ár síðan síðast, svo vonandi er hún laus við þetta.

Svo segi ég ykkur bráðum frá leyni-gæluverkefninu mínu sem ég var að klára. Bíð bara eftir að vinur minn standi við eitt loforð, þá er allt klárt. Munið svo að það er aldrei kreppa í ástinni, knús á ykkur Heart


Gíslatakan yfirstaðin

Ég vona að ég verði ekki úthrópuð sem hryðjuverkakona þó svo að heimilið hér líti út fyrir að hér hafi verið framið hryðjuverk.

IMG 0112

Þrátt fyrir að hér hafi farið fram gíslataka, þá var það ekki Gísli smiður sem ég tók. Hann bara skrapp út í sólina með fjölskyldunni sinni og strákarnir hans sáu um að klára verkið hér úti.

IMG 0188

Það nefnilega KOM loksins pípari í heimsókn. Ég hefði kannski átt að athuga vegabréfið hans, gá hvort hann væri frá öðrum hnetti W00t En sem sagt, varmaskiptir loksins kominn í gagnið. Svo skipti hann um nokkra krana á ofnum hér líka, svo nú ætti tryggingafélagið mitt að geta sofið rótt Whistling 

IMG 0120

Það var í nógu að snúast hjá mér í gær við að segja iðnaðarmönnum til W00t eða þannig sko, pípari inni og steypuvinna úti. Stelpunum fannst voða spennandi að fylgjast með mönnunum "drullumalla"

IMG 0115

Eydísi fannst samt öruggara að sitja uppi og fylgjast með. Steypubíllinn með stóra kranann var voða spennandi, en samt óhugnalega stór fyrir lítið skott

IMG 0134

Þórdís var mun frakkari, hefði helst vilja halda í ranann á steypurörinu. Varð samt að prófa að fara upp á stillansinn.

IMG 0141

Gvendur múrari og nágranni kom og tók þetta út

IMG 0153

Það varð smá steypa afgangs sem var hellt í holuna. Þórdís vildi endilega fá að leika í henni en mamma hennar var ekki jafn áhugasöm um það LoL Svo þær fundu hrúgu af sagi sem þær notuðu í leik.

IMG 0158

Það þarf ekki flókinn efnivið til að gera eitthvað spennandi

IMG 0162

Mótin voru svo rifin af í dag. Pjakkur mættur í heimsókn. Hann er farinn að gera eins og Simbi, kisinn okkar, hann opnar bara útihurðina og býður sér inn. Ég veit ekki hvar hann á heima þessi hundur, eða hver á hann, en hann er voða vinalegur og ljúfur. Meira að segja Simbi er farinn að venjast honum.

IMG 0180

Múrarinn, faðir minn, kom svo í heimsókn og tók út vegginn. Og það varð að sjálfsögðu að fóðra kjötsúpugenin í leiðinni Tounge 

IMG 0185

Kjötsúpa er eitt af mínum uppáhaldsmat. Fékk það með genunum frá pabba. Ef pabba langar í kjötsúpu, þá hringir hann í mig og ég hringi í mömmu og væli út kjötsúpu. Þannig virkar plottið best Grin Svo er ég líka reglulega með kjötsúpu og þá koma þau hingað. Gikkirnir (allir nema ég og pabbi) fá svo hrísgrjón og karrýsósu með, svo þau geti sleppt súpunni. Og þannig verða allir glaðir, kjöt í karrý er nefnilega uppáhaldið hans Steina.

IMG 0177

Svo varð ég að setja þessa mynd inn líka. Þessa mynd teiknaði Þórdís og sagði að hún væri handa "englakonunni". Ég var smástund að fatta hver englakonan væri. "Jú, mamma, þetta eru hundarnir sem englakonan á, manstu, sem gaf okkur englamyndina" Og þá kviknaði á perunni hjá mér, Englakonan er Ragnhildur bloggvinkona. Þórdís passaði alltaf mynd sem við fengum á sýningunni hennar í sumar og svo heimsóttum við hana og þar hitti hún hundana hennar. Þessi mynd er handa Ragnhildi Joyful 

Munum svo að vera góð hvort við annað. Bros kostar ekkert en gefur mikið Smile Það er mikilvægt á þessum tíma sem við öll þurfum að ganga í gegnum núna. Heart


Hasar á heimavelli

Við sem búum í Grindavík, yljum húsin okkar með því gæðavatni sem okkur er skaffað af Hitaveitu Suðurnesja. Örlitlar aukaverkanir hljótast þó af þessu vatni. Þær eru, að ofnarnir í húsunum duga aðeins örfá ár Devil Á þessum 6 árum sem við höfum búið í okkar húsi, höfum við endurnýjað alla ofna í húsinu, og suma oftar en einu sinni. Mér skilst að það sé svo mikið súrefni í vatninu, að þess vegna tærast ofnarnir innan frá. Svo bara allt í einu, hviss, bang, og vatn út um allt Devil Ég gæti allt eins kynnt húsið með rándýru rafmagni eins og er víða á landsbyggðinni. Þegar upp er staðið er þetta ekkert ódýrara. Húsið sem mamma og pabbi eiga í Mosó, er tveimur árum yngra en okkar hús, og ég man ekki eftir því að þurft hafi að endurnýja einn einasta ofn hjá þeim. Við erum búin að vera í tvö ár að biðja pípara um að koma hingað og setja upp varmaskipti, til að minnka líkurnar á því að þetta gerist. En þessi stétt iðnaðarmanna er eitthvað öðruvísi en aðrar. Ja, nema það standi kannski á enninu á mér að ég borgi aldrei pípurum...Woundering Þeir 5-6 sem við höfum talað við birtast aldrei. En nú hætti ég ekki fyrr en einhver mætir eða ég fer og tek pípara í gíslingu. Það nefnilega sprakk ofn í stofunni á fimmtudaginn og allt fór á flot hjá okkur. Það eru ekki nema tæp fimm ár síðan stofan fór á flot og við settum nýtt parket. Og allt ónýtt aftur Frown 

IMG 0002

Hér er Steini byrjaður að rífa parketið upp af gólfinu. Eins gott að hafa hraðar hendur, því það er timburgólf undir.

IMG 0007

Þegar búið var að þurrka pollinn af gólfinu og maður gekk yfir parketið, þá spýttist vatn upp á milli raufanna.

IMG 0018

Jamm, allt á tjá og tundri

IMG 0009

En sumir kippa sér ekkert upp við það. Fá bara naglalakk á táslurnar og fara svo í fína skó Grin 

IMG 0042

Svo var bara mublunum ýtt yfir í þurra endann. Þar var hægt að kósa sig og læra að lesa.

IMG 0036

Þær eru mjög áhugasamar að læra að lesa og skrifa. Hér er Eydís að lesa fyrir Simba þrífætta.

IMG 0064

Í gær bakaði ég svo snúða og pönnukökur. Fanný og Dóri komu yfir með strákana sína, mamma kom, og svo Benni með krakkana sína. Hér er verið að ræða þjóðmálin. Ég vildi nú frekar eiga hlutabréf í ofnasmiðjunni heldur en Glitni...GetLost  

IMG 0089

En minn arður er mestur í þessum elskum hér InLove 

IMG 0071

Hér eru Logi og Tómas Orri að leika við Þórdísi

IMG 0084

Eydís og Arnar Ísak komin með dótið inní stofu. Nýja parketið keyptum við hjá Agli Árnasyni og hér er það komið í hús. Það verður ekki sett á gólfið fyrr en píparinn er mættur.

IMG 0048

Jamm, iðnaðarmenn í öllum hornum hjá mér. Hér er Gísli smiður með sína menn að klára vegginn á bílaplaninu. Sem sagt, allt í drasli alls staðar og nóg að gera hér Grin


Grallarar og brallarar

Uppáhaldsmaturinn hennar Þórdísar eru kótilettur í raspi. Mér sýnist á öllu að hann sé að verða uppáhaldsmaturinn hennar Eydísar líka og að sjálfsögðu er þetta uppáhaldsmaturinn hans Steina! Þar sem allir eru svona miklir kótilettuaðdáendur hérna, þá er það komið uppí vana hjá mér að elda alltaf risaskammta af þeim. Og oft mæta líka vinir og nágrannar í kótilettuhlaðborð hingað. Á laugardaginn voru það Eva og strákarnir hennar sem mættu yfir í kótilettur.

IMG 9921

Þórdís kótilettukerling elskar að fá að bralla þetta með mömmu sinni. Hún er mjög skipulögð og hefur allt til sjálf, hrærir eggin og veltir kótilettunum upp úr raspi.

IMG 9924

Fagleg vinnubrögð

IMG 9928

Hér er Eva með Hilmi ofurkrútt. Hann er jafn gamall Eydísi og þau eru bestu vinir.

IMG 9931

Hér er líka Enika Máney. Hún, Eydís og Hilmir eru alveg límd saman alla daga, bæði á leikskólanum og heima.

IMG 9932

Hér á svo að fara að byrja að borða, fyrsti skammtur kominn á borðið. Ótrúlegt en satt, litlu krílin borðuðu fimm eða sex kótilettur hver Tounge Ég taldi ekki ofan í fullorðna fólkið, hehe, svo það verður ekki gefið upp hvað hinir átu!

IMG 9902

Svo fóru krakkarnir að lita og teikna. Hér er það nýjasta hjá Þórdísi. Hún er farin að æfa sig í því að teikna eftir hlutum.

IMG 9904

Og það gengur bara vel hjá henni Smile 

IMG 9942

Svo kósuðum við okkur og horfðum á sjóræningjamynd saman. Eydís varð alveg furðulostin þegar ég kom með pez-karla handa þeim, og þeir voru alveg eins og Jack Sparrow, sem við vorum að horfa á í sjónvarpinu! En það var bara tilviljun að ég hafði keypt svoleiðis.

IMG 9953

En svo fórum við í klippingu í gær og stelpurnar fengu stutt hár. Ég var búin að tala um það við Eydísi hvort hún vildi prufa að hafa stutt hár og henni leist vel á það. Ég var stundum að vorkenna henni að hafa svona sítt hár, því hún rífur allt úr hárinu sem ég set í það, og svo fer það bara ofan í matinn...Woundering Ég bjóst ekki við því að Þórdís prinsessa mundi vilja sleppa því að hafa hjartafléttu í hárinu, en um leið og hún sá Eydísi með stutt hár þá vildi hún líka. Hér eru skvísurnar nýklipptar Wink 

IMG 9966

Í dag fórum við með Stínu og Finn í göngutúr. Fórum meðal annars á snyrtistofuna. Við sendum Stínu í bjútímeðferð á meðan við pössuðum Finn. Takið eftir Eydísi, hún er hér að snyrta neglurnar á Finni, en það er eitthvað sem hún gerir við alla LoL Hún er algjör nagladama.

IMG 9986

Stelpunum finnst ofsalega gaman að passa Finn og taka því hlutverki mjög alvarlega.

IMG 9992

Og hann er allur strokinn og faðmaður. Ég bíð bara eftir því að heyra bón um að þær eignist lítinn bróður...Undecided LoL 


Skápadagur og heimsókn

Börnin spretta svo hratt að það er nauðsynlegt að tæma skápana öðru hvoru og sortera föt. Ég er búin að taka skápana þeirra í gegn í dag. Föt af Þórdísi eru komin inní skápinn hennar Eydísar og svo áttu þær slatta af nýjum fötum sem biðu eftir að þær pössuðu í þau, sem eru komin í gagnið núna. Það vill svo til að engin stelpa hefur fæðst í fjölskyldunni eftir að þær fæddust. Það eru allt strákar sem hafa fæðst á eftir þeim. Ég var á sínum tíma komin með föt í tonnatali sem ég var að vandræðast með. Þá fann ég konu sem vantaði föt á dóttur sína sem er aðeins yngri en Eydís. Hún hefur verið áskrifandi að fötum hjá mér og fær sem sagt eina sendingu núna Smile 

En amma og afi komu í heimsókn og það þurfti að sprella heilmikið og sýna smá fimleika.

IMG 9794

Hér er afi að reyna að fara í splitt

IMG 9797

Þrátt fyrir aðstoð tókst ekki að koma afa í splitt LoL 

IMG 9798

Svo var reynt að stilla upp fyrir fimleikamynd Tounge 

IMG 9826

Eydís sprellaði með afa

IMG 9822

Það er ekki erfitt að fá afa með í sprell

IMG 9817

Á meðan voru Þórdís og amma að lesa

IMG 9841

Svo þurfti að sýna smá æfingar áður en amma og afi fóru. Hér er Þórdís í handstöðu.

IMG 9843

Og Eydís komin í handstöðu líka.

IMG 9835

Það vafðist nú ekkert fyrir afa að standa á höndum W00t en ég er ekki viss um að þessi aðferð hafi alveg verið samþykkt...LoL 

IMG 9849

En þær systur eru voða góðar að leika sér saman. Þær hafa heilmikinn félagsskap af hvor annarri og það er alveg jafnræði á milli þeirra í leiknum. Þær skiptast alveg á að ráða og hafa frumkvæði. Smá slagsmál inn á milli, en það væri held ég ekki eðlilegt ef það gerðist ekki. Ég vil meina að það styrki bara systrakærleikann InLove


Haustverk og uppskeruhátíð

Það kom smá hlé í dag á rigningunni og rokinu sem er búið að vera undanfarið. Ég notaði tækifærið og dreif mig út að setja niður haustlauka. Ég setti niður túlipana, páskaliljur, anemónur og eitthvað sem heitir muscari, en ég hef ekki prófað þá tegund áður. Ætla svo að kaupa smá slatta í viðbót og setja niður fljótlega. Ég elska það á vorin að sjá blómin gægjast upp úr moldinni. Ég vona bara að allt hafi farið rétt niður, hehe, var í smá vandræðum með eina tegundina, hef bara ekki séð svoleiðis lauka áður en ég reyndi að nota innsæið til að leysa það. Það kemur svo bara í ljós í vor hvort allt birtist á réttum stað Blush en ég get þá allavega huggað mig við það að það er bara ég sem veit hvert þessir laukar fóru Whistling Steinþór var að kantskera grasið svo það ætti líka að auðvelda vorverkin næst. Tóti kom svo seinni partinn og braut bílaplanið fyrir okkur. Æ það var eitthvað svo ljótt, steyptur helmingurinn af því og allt skakkt skorið. Erum að spá í að helluleggja það frekar.

IMG 9850

Hér er Tóti mættur. Eitthvað er kallinn illur á svipinn þó svo hann hafi ekkert orðið illur W00t 

IMG 9861

Hér er hann að verða búinn að brjóta allt. Stelpurnar sitja í bílskúrnum og fylgjast vel með.

IMG 9868

Það er nefnilega mjög spennandi að sjá svona gröfu vinna. Samt betra að vera "viðbúinn" þegar stéttin hrynur!

IMG 9869

Eydís var sérstaklega spennt yfir þessu eins og sjá má

IMG 9870

En þrátt fyrir að vera orðin einlægur aðdáandi Tóta, þá vildi hún ekki fara inní gröfuna með honum. Maður verður nú að taka þetta í smá áföngum, hehe.

IMG 9877

Þórdís teiknaði mynd af gröfunni hans Tóta og færði honum. Hún var að vísu búin að teikna mynd af hinni gröfunni hans, hafði ekki séð litlu gröfuna áður. Mikill heiður að fá að afhenda þetta listaverk Smile Eydís hljóp svo inn og teiknaði mynd af hurð handa honum, voða fína Grin 

IMG 9884

Eydís hjálpaði pabba sínum að moka upp möl. Það var orðið frekar kalt og ég bauð henni að koma inn og horfa á barnatímann með Þórdísi. En nei, hún mátti sko ekkert vera að því. "Ég er í vinnunni með pabba" sagði hún og var mjög ábyrg í málrómnum LoL 

Svo var líka kominn tími fyrir uppskeruna. Ég er að spá í hvort ég eigi að halda uppskeruhátíð eða hvað. Og hvort ég ætti þá að hafa hana mjög formlega eða...

IMG 9880

...jamms. Þetta er sem sagt uppskeran úr einu blómabeðinu mínu LoL Þessi kálhaus spratt bara upp úr blómabeði hjá mér í sumar...hvort Hrappur og Hrekkir voru hér á ferð veit ég eigi...GetLost en þeir munu allavega þræta fyrir það eins og sprúttsalar Halo 

Bestu kveðjur til ykkar Heart


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigrún Þorbjörnsdóttir

Höfundur

Sigrún Þorbjörnsdóttir
Sigrún Þorbjörnsdóttir

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG 7150
  • IMG 7145
  • IMG 8394
  • IMG 7856
  • IMG 7847

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband